top of page

Danssýningin SPOR eftir Bíbí & Blaka var frumsýnd í Gerðubergi vorið 2019 og hefur síðan farið í ferðalög bæði um Ísland en einnig til Noregs, Færeyja og Grænlands. 

 

Spor fjallar um orku: orkuna í náttúrunni, dýrunum, veðrinu og líka orkuna í okkur sjálfum. Verkið er innsetning þar sem að áhorfendur ferðast niður á hafsbotn, inn í skóg og að lokum upp í himingeim. Með þeim á ferðalaginu eru undarlegar verur sem að aðstoða áhorfendum og hjálpa þeim að rata rétta leið. Sýningin er þátttökusýning og er ætlað er að virkja börnin til að taka þátt í leik og dansi og prufa sig áfram með ljós og hljóð í leikmununum. 

 

Í æfingarferli við sköpun verksins SPOR voru haldnar vinnustofur með börnum hér í Reykjavík og í Nuuk á Grænlandi. Þetta var gert til að fá skoðanir og hugmyndir barnanna inn í verkið og fá endurgjöf frá þeim á okkar hugmyndir og tilraunir. Eðli verksins SPOR er þannig að það hefur þróast og breyst mikið frá því það var frumsýnt fyrir þremur árum og hafa vinnustofurnar og endurgjöf áhorenda spilað mikilvægt hlutverk þar í. Nú þegar sýningarferðalögum á verkinu er að ljúka viljum við fá að halda áfram þessu skemmtilega samtali og samvinnu við börnin og bjóða upp á vinnustofu byggða á verkinu. Vinnustofan verður skapandi upplifun fyrir börn þar sem að blandað er saman sjónlistum og sviðslistum. 

 

Aðstandendur vinnustofunnar eru Tinna Grétarsdóttir danshöfundur og Guðný Hrund Sigurðardóttir, sviðshönnuður. Þær hafa unnið náið saman síðustu 10 ár undir merkjum Bíbí & blaka. Þær hafa gert 5 danssýningar sem að allar hafa hlotið mikið lof og ferðast víða bæði innanlands sem utan. Ávallt hefur verið lögð áhersla á að börnin fái að leika sér í sviðsmyndinni, snerta og upplifa verkið á fleiri forsendum en bara að sitja kyrr sem áhorfandi. Þátttakan í verkinu SPOR er hönnuð út frá reynslu þeirra af fyrri verkum þeirra og var þá enn meiri áhersla lögð á leikinn. Með því að skapa sjálfstæðar vinnustofur er þetta svo tekið einu skrefi lengra og öll áherslan lögð á upplifun barnanna og þeirra sköpunarkraft.   

 

Tinna og Guðný hafa að auki töluverða reynslu sem kennarar. Guðný var deildarstjóri á leikskólanum Drafnarborg í nokkur ár og Tinna hefur kennt börnum og ungu fólki dans á flestum skólastigum.

 

Uppbygging námskeiðsins

 

Námskeiðinu hentar best að vera um 60-90 mínútur að lengd en hægt er að stytta niður í 45 mínútur ef að þess krefst. Verður þá lögð meiri áhersla á skapandi dans og að fá börnin til að hreyfa sig. 

 

Vinnustofan byrjar á stuttri kynningu á okkur og verkinu SPOR. Sýnt verður lítið vídeóbrot til að koma umræðum af stað. Svo verður hópnum skipt upp og farið í skapandi hugarflug þar sem að við ræðum um orkuna í náttúrunni og hvernig hún er í bæði hinu smáa og stóra. Rætt verður um orkuna í manninum, inni í líkamanum okkar og orkuna sem að við getum skapað með því að hreyfa okkur. Skrifum eða teiknum helstu hugmyndir og hugsanir niður á stór blöð og hengjum upp í kringum okkur ef að hægt er. 

Þegar við erum búin að koma þemanu af stað í huga okkar förum við af stað með það í líkamanum og við tekur skapandi dansvinna með skemmtilegri tónlist. 

Í SPOR vinnum við mikið með vatn og skoðum sérstaklega dýr sem að lifa í vatninu og geta lýst sig sjálf upp. Þetta á við um marglyttur og ákveðna þörunga. Þetta eru skrítnar lífverur sem að ekki er alltaf augljóst hvaða tilgang hafa eða hvernig þau lifa og hreyfa sig. Þetta viljum við skoða með börnunum og prufa að leika þessar verur. Dansa þær og kannski syngja eins og þær. 

 

Eftir hreyfinguna munum við halda áfram að ræða saman og skoða hvort að dansinn hafði einhver áhrif á orkuna í okkar líkama og orkuna í umhverfi okkar. Á meðan við hugsum um þetta búum við til litlar verur úr einföldum efnivið. Við getum útbúið marglyttur, þörunga eða skrítnar pöddur og við munum sérstaklega skoða myndir af dýrum sem að geta gert sig sjálflýsandi og skapað þannig ljós í eigin líkama. Þessar verur verða í bandi og munu hjálpa okkur að finna upp á nýjum hreyfingum þegar við höldum dansinum áfram. 

Þegar við höfum dansað aðeins meira og skapað okkar eigin veru bæði í eigin líkama og sem við dönsum með þá er komið að því að skapa umhverfi fyrir verurnar. 

Þá drögum við fram einföld létt en stór álteppi. Með þeim getum við búið til haf í kringum okkur og geta verurnar þá synt um í vatninu. Einnig skapast öldur sem skapa mikla hreyfingu og hvetur börnin til að fljóta um í rýminu. Til að klára þennan heim fá börnin svo höfuðljós sem að geta skipt um lit og í endurspeglast fallega í silfurlituðu álteppinu. Þá verðum við komin með okkar eigið úthaf til að synda í og börnin hafa skapað sína eigin útgáfu af verkinu SPOR.

bottom of page